Umsóknir um sjúkradagpeninga og nauðsynleg fylgigögn

Nánar um skilyrði greiðslu og nauðsynleg fylgigögn með umsókn

Nánari upplýsingar fyrir launþega

Launþegar sem fá greidd laun í veikindum samkvæmt kjarasamningum fá sjúkradagpeninga greidda þegar þau laun falla niður.

Óskertir dagpeningar greiðast þeim sem fella niður heils dags vinnu (fullt starf). Hafi einstaklingur unnið í lægra starfshlutfalli greiðast að jafnaði hálfir dagpeningar, en réttur getur þó verið minni ef starfshlutfall sem lagt er niður vegna veikinda var undir 50%. Sá sem vann fulla vinnu fyrir veikindin og tekur upp allt að hálfs dags starf í afturbata getur fengið hálfa dagpeninga í allt að þrjá mánuði.  


Með umsókn launþega um sjúkradagpeninga verða að fylgja:

  1. Sjúkradagpeningavottorð frá lækni.
  2. Vottorð launagreiðanda/atvinnurekanda (það má finna undir Eyðublöð - Sjúkradagpeningar).

Nánari upplýsingar fyrir sjálfstætt starfandi

Óskertir dagpeningar greiðast þeim sem fella niður heils dags vinnu (fullt starf). Hafi einstaklingur unnið í lægra starfshlutfalli greiðast að jafnaði hálfir dagpeningar, en réttur getur þó verið minni ef starfshlutfall sem lagt er niður vegna veikinda var undir 50%. Sá sem vann fulla vinnu fyrir veikindin og tekur upp allt að hálfs dags starf í afturbata getur fengið hálfa dagpeninga í allt að þrjá mánuði.

Við greiðslu sjúkradagpeninga til þeirra sem eru sjálfstætt starfandi er miðað við reiknað endurgjald sem greitt hefur verið tryggingagjald af. Þegar viðkomandi verður tekjulaus vegna veikinda þarf að tilkynna það til skattyfirvalda, en tilkynning berst SÍ þá rafrænt.

Með umsókn sjálfstætt starfandi einstaklinga um sjúkradagpeninga verður að fylgja:

  1. Læknisvottorð vegna sjúkradagpeninga.

Nánari upplýsingar fyrir námsmenn

Tekjulaust námsfólk 18 ára og eldra sem stundar a.m.k. 75% nám getur átt rétt á sjúkradagpeningum, að uppfylltum nánari skilyrðum laganna, ef veikindi valda töfum á að námsáfangi náist.

Með umsókn námsmanna um sjúkradagpeninga verða að fylgja:

  1. Læknisvottorð vegna sjúkradagpeninga.
  2. Vottorð frá skóla vegna forfalla frá námi. Í vottorði þarf að koma fram einingafjöldi í upphafi annar og  hvaða námsáfanga/-föngum umsækjandi gat ekki lokið.

Nánari upplýsingar vegna fæðingar í heimahúsi

Móðir sem fæðir barn í heimahúsi á rétt á fullum sjúkradagpeningum í 10 daga frá fæðingu barns.

Með umsókn um sjúkradagpeninga vegna heimafæðingar verður að fylgja:

  1. Vottorð ljósmóður vegna heimafæðingar.

Nánari upplýsingar vegna áfengis- og/eða vímuefnameðferðar

Sjúkradagpeningar eru einungis greiddir til einstaklinga sem sækja áfengis- og/eða vímuefnameðferð fyrir það tímabil sem þeir eru í sérhæfðri meðferð á viðurkenndri stofnun. Skilyrði er að meðferð taki í að minnsta kosti 21 dag. Þetta gildir bæði um inniliggjandi sjúklinga og þá sem eru í meðferð á dagdeildum. Ekki eru greiddir sjúkradagpeningar vegna göngudeildarmeðferðar.

Með umsókn um sjúkradagpeninga vegna áfengis- og/eða vímuefnameðferðar verður að fylgja: 

  1. Læknisvottorð vegna sjúkradagpeninga frá meðferðarstofnun.
  2. Ef umsækjandi hefur verið launþegi, nemi eða sjálfstætt starfandi síðustu 2 mánuði fyrir sjúkrahúsvist þarf að skila inn viðeigandi gögnum, sbr. upplýsingar að ofan. Ef ekkert af framantöldu á við þarf aðeins að skila læknisvottorði með umsókn.

Nánari upplýsingar fyrir heimavinnandi

Falli störf heimavinnandi fólks á eigin heimili alveg niður vegna veikinda eru greiddir hálfir sjúkradagpeningar. 

Með umsókn heimavinnandi um sjúkradagpeninga verða að fylgja:

  1. Læknisvottorð vegna sjúkradagpeninga.

Heimild til viðbótargreiðslu vegna útgjalda við heimilishjálp

Heimilt er að greiða þeim sem njóta hálfra dagpeninga allt að helmingi dagpeninga til viðbótar vegna útgjalda við heimilishjálp sem veitt er af öðrum en heimilismönnum. Viðbótin er greidd gegn framvísun útgefins reiknings vegna heimilishjálpar.  

Á reikningi fyrir heimilishjálp þarf að koma fram kennitala og heimilisfang móttakanda greiðslu, auk upplýsinga um vinnutíma og upphæð greiðslu.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica