Nám utan EES landa og Sviss

Námsmenn sem stunda nám í löndum utan EES og fjölskyldur þeirra geta haldið lögheimili sínu hér á landi meðan á námi stendur og haldið rétti sínum til almannatrygginga. Unnt er að fá útgefna tryggingaryfirlýsingu um sjúkratryggingar hér á landi.

Tryggingaryfirlýsingar námsmanna eru í raun viljayfirlýsingar um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í þeim sjúkrakostnaði sem námsmaður kann að verða fyrir á meðan á námi erlendis stendur. Námsmenn, makar þeirra og börn greiða sama verð og einstaklingar greiða fyrir sambærilega heilbrigðisaðstoð hér á landi auk umframkostnaðar.

Kostnaður heilbrigðisaðstoðar erlendis í hverju tilviki fyrir sig er borinn saman við kostnað heilbrigðisaðstoðar hér á landi. Ef um er að ræða umframkostnað heilbrigðisaðstoðar erlendis þá er greiðsluþátttaka að ákveðnum hluta að hálfu Sjúkratrygginga Íslands.

Tryggingaryfirlýsingar námsmanna geta eftir atvikum lækkað þann hluta skólagjalda sem annars færi í að sjúkratryggja viðkomandi nemenda. Einstaklingar sjálfir þurfa að kanna hvort að tryggingaryfirlýsing Sjúkratrygginga Íslands sé fullnægjandi.

Til þess að fá útgefna tryggingaryfirlýsingu þarf að senda inn umsókn um tryggingaryfirlýsingu vegna dvalar erlendis í tengslum við nám (sjá hægra megin á síðunni) ásamt staðfestingu á því að námsmaður muni hefja viðurkennt nám erlendis. Vakin er athygli á því að það er ekki nægileg staðfesting að sýna fram á að námsmaður hafi verið samþykktur til þess að hefja ákveðið nám heldur þarf að koma fram hvenær áætlað er að námsmaður hefji nám og hvenær því lýkur.

Nám í Bandaríkjunum

Námsmenn í Bandaríkjunum eru hvattir til að hafa samband við tengilið Sjúkratrygginga Íslands í Bandaríkjunum, GMMI Global. Global á að auðvelda sjúkratryggðum einstaklingum frá Íslandi aðgengi að ýmsum sjúkrastofnunum í Bandaríkjunum.  Hægt er að hafa samband við GMMI Global í gegnum tollfrjálst númer 1-800-682-6065 eða á netfangið customerservice@gmmi.com . Þegar tryggingayfirlýsing er gefin út til námsmanna í Bandaríkjunum fylgir bréf með með öllum upplýsingum varðandi GMMI Global.


Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica