Flutningur til Íslands

Einstaklingum sem flytja til Íslands ber að skrá lögheimili sitt hér á landi hjá Þjóðskrá. Þegar lögheimilisskráningu er lokið verða einstaklingar sjálfkrafa sjúkratryggðir á Íslandi eftir sex mánuði. Ef flutt er til Íslands frá EES landi eða Sviss geta einstaklingar sem búnir eru að skrá sig inní landið og komnir með kennitölu sótt um skráningu í Tryggingaskrá hjá Sjúkratryggingum Íslands, sjá hægra megin á síðunni „Umsókn um skráningu í tryggingaskrá. Hana má senda rafrænt til Alþjóðadeildar Sjúkratrygginga Íslands á netfangið international@sjukra.is


Ef einstaklingar sem flytja frá öðru EES landi eða Sviss sækja ekki um skráningu í tryggingaskrá verða þeir sjálfkrafa sjúkratryggðir sex mánuðum eftir skráningu hjá Þjóðskrá. 

Einstaklingar sem flytja frá EES landi eða Sviss og hafa verið tryggðir í almannatryggingakerfi í fyrra búsetulandi eiga rétt á því að vera sjúkratryggðir frá og með þeim degi þegar lögheimili er skráð. Eigi einstaklingar ekki tryggingaréttindi í fyrra búsetulandi verða þeir að bíða í sex mánuði eftir sjúkratryggingu. Sama gildir um þá sem flytja frá landi utan EES. Er þá einnig miðað við dagsetningu lögheimilisskráningu.

Þegar umsókn vegna flutnings frá EES landi eða Sviss hefur borist sendir Alþjóðadeild Sjúkratrygginga Íslands fyrirspurn til fyrra búsetulands um fyrra tryggingatímabil og þurfa einstaklingar því ekki að skila inn neinum gögnum, flýtir þó fyrir ef einstaklingar skila inn E-104 með umsókn um skráningu. Á meðan umsókn er í vinnslu eru einstaklingar skráðir ósjúkratryggðir. Þurfi þeir á læknisþjónustu að halda á vinnslutíma umsóknar geta þeir framvísað evrópska sjúkratryggingakortinu frá fyrra búsetulandi, hafi þeir slík kort, og þá greitt sem sjúkratryggðir, eða greitt sem ósjúkratryggðir og sótt um endurgreiðslu hjá Sjúkratryggingum Íslands (Umsókn um innlenda endurgreiðslu) þegar búið er að afgreiða sjúkratryggingu.

Einstaklingar sem flytja á milli landa bera ábyrgð á því að skráning þeirra sé rétt hjá viðkomandi yfirvöldum.

Flutningur frá Norðurlöndum

Einstaklingar sem eru að flytja aftur til Íslands frá Norðurlöndunum innan 12 mánaða verða sjálfkrafa sjúkratryggðir eftir lögheimilisskráningu í Þjóðskrá.

Námsmenn sem flytja til baka frá Norðurlöndunum innan við sex mánuðum frá námslokum geta komið með staðfestingu á námi fyrir tímabilið ásamt umsókn um skráningu í tryggingaskrá til að verða tryggðir frá og með þeim degi þegar lögheimili er skráð.

Gagnlegar upplýsingar um flutninga milli Norðurlanda má finna á vefsíðunni Hallo Norden og norrænni vefgátt um almannatryggingar: Nordic Social Insurance Portal


Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica