Ferðamenn erlendis

Í EES landi og Sviss

Ferðamaður í öðru EES landi nýtur ákveðinna réttinda til læknishjálpar innan hins opinbera heilbrigðiskerfis í viðkomandi landi. Einungis er átt við nauðsynlega þjónustu miðað við tímalengd dvalar.

Sjúkratryggingar Íslands hvetja alla til að sækja um evrópska sjúkratryggingakortið til að tryggja sér rétt til aðstoðar í viðkomandi landi.

Ef ES korti er ekki framvísað við þjónustuaðila innan hins opinbera sjúkratryggingakerfið er hægt að sækja um að fá hluta sjúkrakostnaðar síns endurgreiddan hjá Sjúkratryggingum Íslands þegar heim kemur. Skila þarf inn umsókn um endurgreiðslu erlends sjúkrakostnaðar ásamt frumriti reikninga og greiðslustaðfestingu. Athugið að Sjúkratryggingar Íslands geta óskað eftir að einstaklingar láta þýða gögn sem ekki eru á ensku.

Nauðsynleg læknisþjónusta hjá einkareknum heilbrigðisveitanda
Þegar nauðsynleg læknisþjónusta er veitt af heilbrigðisveitanda í einkaeigu er hægt að sækja um endurgreiðslu á grundvelli 12. gr. reglugerðar nr. 484/2016. Sjá nánar undir heilbrigðisþjónusta yfir landamæri innan EES lands.

Einstaklingar sem hafa ríkisfang utan EES landa og eru sjúkratryggðir á Íslandi
Ekki er gefið út evrópskt sjúkratryggingakort til einstaklinga með ríkisfang utan EES landa þó svo einstaklingur sé sjúkratryggður á Íslandi. Þeir fá útgefna svokallaða tryggingayfirlýsingu þegar þeir ferðast sem staðfestir að viðkomandi sé sjúkratryggður í almannatryggingakerfinu á Íslandi. Hægt er að sækja um Tryggingayfirlýsingu inná Réttindagáttinni.

Ef reikningar eru mjög háir er einstaklingum bent á að hafa samband við Alþjóðadeild SÍ á netfangið international@sjukra.is eða í síma 515-0002

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica