Meira um ferðakostnað

Þegar sjúkdómsmeðferð er ekki í boði á heimaslóðum

 • þurfi læknir í heimabyggð að vísa sjúklingi frá sér til óhjákvæmilegrar sjúkdómsmeðferðar
 • meðferðin er hjá opinberum sjúkrastofnunum
 • meðferðin er hjá öðrum aðilum heilbrigðiskerfisins sem sjúkratryggingar hafa gert samning við og Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í að greiða
 • meðferðin er hjá talmeinafræðingum eða vegna tannréttinga skv. ákveðnum skilyrðum
 • ferðir vegna tannlækninga þurfa tannlæknar að sækja um

Þegar um langar ferðir eru að ræða

Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í kostnaði við tvær ferðir sjúklings á 12 mánaða tímabili, ef um er að ræða eftirfarandi:

 • nauðsynlega ferð
 • að minnsta kosti 20 kílómetra vegalengd er á milli staða
 • farið er til að sækja (að tilhlutan læknis í heimabyggð) óhjákvæmilega sjúkdómsmeðferð til greiningar, meðferðar, eftirlits eða endurhæfingar
 • skilyrði er að þjónustan sé ekki fyrir hendi í heimabyggð

Þegar um ítrekaðar ferðir eru að ræða

Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í kostnaði vegna ítrekaðra ferða ef um er að ræða alvarlega sjúkdóma, svo sem:

 • illkynja sjúkdóma
 • nýrnabilun
 • alvarlega hjartasjúkdóma
 • alvarlega sjúkdóma barna
 • alvarlega geðsjúkdóma
 • alvarleg vandamál í meðgöngu
 • tæknifrjóvgunarmeðferð (Í þeim meðferðum sem sjúkratryggingar taka þátt í) 
 • tannlækningar vegna mjög alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma
 • fyrir ítrekaðar ferðir vegna alvarlegra sjúkdóma er nú hægt að byggja samþykki fyrir endurgreiðslu ferðakostnaðar á skýrslu læknis, hvort sem hann hefur sjúkling til meðferðar eða er læknir í heimabyggð. Áður gilti einungis skýrsla læknis í heimabyggð.

Stuttar og ítrekaðar ferðir

Þegar um nauðsynlegar ítrekaðar ferðir sjúklings vegna alvarlegra sjúkdóma er að ræða endurgreiða Sjúkratryggingar Íslands 3/4 hluta ferðakostnaðar með leigubifreið ef sjúklingur er ekki fær um að ferðast með áætlunarbifreið eða strætisvagni þó vegalengd sé skemmri en 20 kílómetrar.

Ef eigin bifreið er notuð í slíkum tilvikum endurgreiða Sjúkratryggingar 2/3 hluta kostnaðarins miðað við gildandi kílómetragjald .

Með ítrekuðum ferðum er að jafnaði átt við tvær ferðir á fjórum vikum eða styttra tímabili.

Ítrekaðar ferðir vegna blóðskilunarmeðferðar

Sé sjúklingur í reglubundinni tíðri blóðskilunarmeðferð, a.m.k. tvö skipti í viku, endurgreiða Sjúkratryggingar Íslands 3/4 hluta kostnaðar í umsömdum hagkvæmum ferðum með leigubifreið, allt að 60 km vegalengd, vegna meðferðarinnar. Skilyrði er að sjúklingur sé ófær um að aka bifreið og að ekki sé unnt að nota almenningsfarartæki af heilsufarslegum ástæðum. 

Ferðir heim

Ef nauðsynleg sjúkdómsmeðferð fjarri heimili tekur a.m.k. 26 daga endurgreiða Sjúkratryggingar ferðir viðkomandi heim aðra hverja helgi. Skilyrði er að vegalengdin sé að minnsta kosti 20 kílómetrar hvor leið.

Ef sjúklingur er yngri en 18 ára er heimilt að endurgreiða ferðir heim hverja helgi.

Ferðir foreldra eða nánasta aðstandanda

Skv. ákvæðum 2. gr. reglugerðarinnar (langar ferðir) endurgreiða sjúkratryggingar daglegar bílferðir foreldris eða nánasta aðstandanda, allt að 200 kílómetra hvora leið, til að vitja sjúklings yngri en 18 ára á sjúkrahúsi. Þetta á við ef um langvarandi eða ítrekaða sjúkrahúsvist er að ræða.

Endurgreiðsla flugferða takmarkast við eina ferð á viku.

Bráðatilvik

Sjúkratryggingar endurgreiða kostnað við ferðir vegna bráðatilvika sem farnar eru samkvæmt ákvörðun læknis og ekki er unnt að sinna í heimabyggð.

Með bráðatilviki er átt við slys eða sjúkdóma sem eru þess eðlis að heilsu sjúklings er bráð hætta búin sé þeim ekki sinnt innan mjög skamms tíma (48 klukkustunda).

Sjúkratryggingar Íslands greiða kostnað við ferð sjúklings heim að loknum sjúkraflutningi

Fræðslunámskeið og nauðsynlegir fundir

Sjúkratryggingum Íslands er heimilt að endurgreiða kostnað við ferðir foreldra eða nánustu aðstandenda alvarlega fatlaðra einstaklinga og sjúklinga sem haldnir eru langvinnum og alvarlegum sjúkdómum til að sækja fræðslunámskeið eða nauðsynlega fundi sem viðurkennd eru af SÍ. Greitt er fyrir tvær ferðir á ári.

Bílaleiga

Ef sjúklingur eða aðstandandi á ekki bifreið og ekki er unnt að nota almenningssamgöngur af heilsufarslegum ástæðum , t.d. vegna sýkingarhættu, endurgreiða Sjúkratryggingar Íslands 3/4 hluta í nauðsynlegum kostnaði í ferðum til sjúkdómsmeðferðar vegna leigubifreiðar (skemmri ferðir undir 20 km.) eða leigu á bifreið hjá viðurkenndri bílaleigu (lengri ferðir yfir 20 km).

Örorkumat

Sjúkratryggingar Íslands greiða ferðakostnað ef umsækjandi um örorkulífeyri eða endurhæfingalífeyri þarf að fara í ferð til að mæta í viðtal eða skoðun. Yfirleitt er það vegna færnimats, örorkumats eða mats á endurhæfingamöguleikum sem nauðsynlegt er að fari fram. Boðunarsjúklingar þurfa einungis að leggja fram kvittanir fyrir fargjaldi vegna ferðarinnar hjá umboðum þegar þeir hafa fengið sendan úrskurð frá Sjúkratryggingum Íslands vegna þessarar boðunar.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica