Vinnuslys

Atvinnurekandi skal senda inn tilkynningu þegar um vinnuslys er að ræða.

Öll slys þarf að tilkynna innan eins árs. Mikilvægt er að tilkynningar séu rétt útfylltar og í frumriti.

Skilyrði er að viðkomandi hafi fengið greidd laun vegna vinnunnar eða ef um sjálfstæðan atvinnurekanda er að ræða þá reiknað endurgjald.

Þegar slys ber að höndum og ætla má að það sé bótaskylt skal það tilkynnt til þjónustumiðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands á Vínlandsleið 16, Reykjavík eða til umboða hennar úti á landi.

Hvaða gögnum þarf að skila inn til Sjúkratrygginga Íslands?

  • Tilkynning um slys - sjá hlekk hægra megin á síðunni.
  • Læknisvottorð vegna slyss (áverkavottorð) frá þeim lækni eða heilbrigðisstofnun/sjúkrahúsi sem slasaði leitaði fyrst til eftir slysið. Í vottorðinu þurfa að koma fram upplýsingar um fyrstu komu vegna slyssins og tímabil óvinnufærni.
  • Lögregluskýrsla eða tilkynning um tjón ef um umferðaslys er að ræða
  • Skýrsla vinnueftirlits ef um vinnuslys er að ræða
  • Læknisvottorð vegna slyss (áverkavottorð)

  • Kvittanir/reikningar vegna útlagðs sjúkrakostnaðar

  • Vottorð sýslumanns ef um banaslys er að ræða

Ef um varanlegar afleiðingar slyssins verður að ræða er möguleiki á greiðslu örorkubóta samkvæmt IV. kafla laga um almannatryggingar þó önnur skilyrði séu ekki uppfyllt.

Ef um er að ræða vottorð frá Landspítala er óskað eftir vottorði meðferðarlæknis. Í vottorðinu þurfa að koma fram upplýsingar um fyrstu komu vegna slyssins og framhaldsmeðferð.

Að beiðni spítalans skal ennfremur bent á að áverkavottorð eru einungis afgreidd skv. beiðni í síma 543-1000. Óska þarf eftir sambandi við læknaritara þeirrar deildar þar sem sjúklingur var til meðferðar.

Hvenær telst maður vera við vinnu?

  • Þegar viðkomandi er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum.
  • Í sendiferðum í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til og frá vinnu. Hér er aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Það sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi, ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.

Strangt tekið á reglum um slys

Sem dæmi má nefna að maður sem er á leið til vinnu en fer í banka á leiðinni er ekki tryggður samkvæmt almannatryggingalögum, verði hann fyrir slysi.

Slys telst ekki verða við vinnu ef það hlýst af athöfnum hins slasaða sjálfs, sem ekki standa í neinu sambandi við vinnuna.

Um tilkynningaskyldu

Hinum slasaða, eða öðrum sem vilja gera kröfu til bóta ber að fylgjast með því að tilkynningaskyldu sé fullnægt. Leita má aðstoðar lögreglu ef atvinnurekandi vanrækir að tilkynna um slysið.

Athugið

Með lagabreytingu, sem tók gildi 1. janúar 2014,  er tjón sem verður vegna bílslyss ekki bótaskylt hjá Sjúkratryggingum Íslands ef tjónið er bótaskylt hjá vátryggingafélagi samkvæmt lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis eða lögboðinni slysatryggingu ökumanns og eiganda. Þessi breyting gildir aðeins um slys sem verða 1. janúar 2014 eða síðar. (Sjá 47. gr. laga nr. 140/2013 frá 27. desember 2013).

 

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica