Slys við heimilisstörf

Þeir sem lenda í slysi við heimilisstörf geta átt rétt á bótum hafi þeir fyllt út viðeigandi reit á skattframtali.

Slysatryggingin nær til heimilisstarfa sem innt eru af hendi hér á landi:

 • Á heimili hins tryggða og í sumarbústað þar sem hinn tryggði dvelur.
 • Í bílskúr og geymslum við heimili hins tryggða eða sumarbústað þar sem hann dvelur.
 • Í afmörkuðum garði og innkeyrslu við heimili hins tryggða eða sumarbústað þar sem hann dvelur.

Til heimilisstarfa sem falla undir slysatryggingu teljast m.a. eftirtalin störf:

 • Hefðbundin heimilisstörf, svo sem matseld og þrif.
 • Umönnun sjúkra, aldraðra og barna.
 • Viðhaldsverkefni og viðgerðir.
 • Hefðbundin garðyrkjustörf.

Undanskilin slysatryggingu við heimilisstörf eru meðal annars:

 • Slys sem einstaklingar verða fyrir við ýmsar daglegar athafnir sem ekki teljast til hefðbundinna heimilisstarfa svo sem að klæða sig, baða og borða.
 • Slys sem einstaklingar verða fyrir á ferðalögum, svo sem tjaldi, hjólhýsi og á hótelum.

Hvaða gögnum þarf að skila inn til Sjúkratrygginga Íslands?

 • Tilkynning um slys - sjá hlekk neðst á síðunni.
 • Læknisvottorð vegna slyss (áverkavottorð) frá þeim lækni eða heilbrigðisstofnun/sjúkrahúsi sem slasaði leitaði fyrst til eftir slysið. Í vottorðinu þurfa að koma fram upplýsingar um fyrstu komu vegna slyssins og tímabil óvinnufærni.
 • Kvittanir/reikningar vegna útlagðs sjúkrakostnaðar
 • Vottorð sýslumanns ef um banaslys er að ræða

Ef um varanlegar afleiðingar slyssins verður að ræða er möguleiki á greiðslu örorkubóta samkvæmt IV. kafla laga um almannatryggingar þó önnur skilyrði séu ekki uppfyllt.

Ef um er að ræða vottorð frá Landspítala er óskað eftir vottorði meðferðarlæknis. Í vottorðinu þurfa að koma fram upplýsingar um fyrstu komu vegna slyssins og framhaldsmeðferð.

Að beiðni spítalans skal ennfremur bent á að áverkavottorð eru einungis afgreidd skv. beiðni í síma 543-1000. Óska þarf eftir sambandi við læknaritara þeirrar deildar þar sem sjúklingur var til meðferðar.

Hak við slysatryggingu á skattframtali forsenda

Þá er hakað við reitinn „slysatrygging við heimilisstörf“.

Slysatryggingin gildir frá 1. ágúst það ár sem skattframtali er skilað og gildir til 31. júlí árið eftir. Ekki er unnt að óska eftir slysatryggingu við heimilisstörf eftir að skattyfirvöld hafa móttekið skattskýrslu.

Öll slys þarf að tilkynna innan eins árs. Mikilvægt er að tilkynningar séu rétt útfylltar og í frumriti.

Slys sem áttu sér stað fyrir 1. ágúst 2012:  

 • Ný reglugerð um slysatryggingar við heimilisstörf nr. 670/2012 tók gildi 1. ágúst 2012.
 • Um slys sem áttu sér stað fyrir 1. ágúst 2012 gildir eldri reglugerð um slysatryggingar við heimilisstörf nr. 280/2005.

 

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica