Tannlækningar barna sem samningur á eftir að taka til

Neðangreindar eru reglur um endurgreiðslur á tannlækningum vegna barna sem samningur Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélags Íslands á eftir að taka til.

Tannlæknar ákveða sjálfir verð á meðferð á sinni stofu. Sjúkratryggingar Íslands gefa hins vegar út eigin gjaldskrá sem stofnunin miðar endurgreiðslur við. Sjá gjaldskrána.

Fyrir börn og unglinga endurgreiða Sjúkratryggingar Íslands 75% af gjaldskrá SÍ.

Ef gjaldskrá tannlæknis er hærri en gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands greiðir einstaklingur mismuninn þar á milli.

Sjúkratryggingum Íslands er ekki heimilt að taka þátt í kostnaði við ýmsar meðferðir svo sem flúorlökkun barna og unglinga oftar en einu sinni á hverju almanaksári.

Börn með bráðavanda sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður

Samningur SÍ og Tannlæknafélags Íslands tekur til barna í bráðavanda sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður þótt þau falli ekki undir aldursmörk samningsins.

Börn með umönnunargreiðslur og andlega þroskahamlaðir einstaklingar 17 ára og eldri

Langveik og mikið fötluð börn og andlega þroskahamlaðir einstaklingar, 17 ára og eldri, fá endurgreiddan allan kostnað við almennar tannlækningar samkvæmt gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands. Skilyrði er að börn fái greiðslur samkvæmt 1., 2. og 3. flokki umönnunargreiðslna.

Sérstök tilvik

Meðferð sem Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í að borga fyrir er almenn. Ef þörf er á sérstökum aðgerðum eins og gullfyllingum, brúm og tannplöntum taka Sjúkratryggingar Íslands ekki þátt í kostnaðinum. Þó getur verið undantekning á þessu í sérstökum tilvikum.
Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í kostnaði við nauðsynlega tannlæknismeðferð vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa, að undangenginni samþykktri umsókn.  Endurgreiðslan er 80% samkvæmt gjaldskrá.

Á sama hátt endurgreiða Sjúkratryggingar Íslands kostnað vegna endurnýjunar tannaðgerða, sem stofnað var til vegna þessa ákvæðis, þegar endurnýjun er nauðsynleg vegna takmarkaðs endingartíma viðurkenndra efna eða aðferða sem notuð hafa verið í upphafi. Sækja þarf um greiðsluþátttöku til  Sjúkratrygginga Íslands áður en meðferð, önnur en bráðameðferð, fer fram. Fylla þarf út umsókn um þátttöku í kostnaði vegna tannlækninga. Bæði tannlæknir og einstaklingur/forráðamaður skrifa undir umsóknina, sem tannlæknir útbýr fyrir einstaklinginn.

Tanntjón af völdum slysa fæst aðeins bætt ef tjónið fæst ekki greitt af þriðja aðila, svo sem tryggingafélagi eða sjúkrasjóði. Um tanntjón í vinnuslysum gilda reglur slysatrygginga.

 

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica